Fréttir

SSNV ræður Söru Björk Þorsteinsdóttur sem verkefnastjóra farsældar á Norðurlandi vestra

Úttekt á aðgengi nemenda að hljóðbókum með áherslu á nýbúa

Á vef Stjórnarráðsins birtist í gær frétt um að nýlega hefði verið undirritaður samningur milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins og ARCUR um úttekt á aðgengi nemenda að hljóðbókaefni á íslensku, bæði námsefni og yndislestrarefni. Úttektinni er ætlað að varpa ljósi á aðgengi leik-, grunn- og framhaldsskólanema að hljóðbókum og mögulegar hindranir. Vilja ráðuneytin líta sérstaklega til nemenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Hlustun samhliða því að fylgja eftir texta bókar getur auðveldað þeim að læra íslensku og flýtt fyrir námi þeirra. Í úttektinni verður horft til aðgengis að efni á Hljóðbókasafni, Rafbókasafni, Borgarbókasafni, á skólabókasöfnum, hjá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu, á efnisveitum eins og Storytel og hlusta.is, og á námsefnis- og skólavefjum. Niðurstöður úttektarinnar munu fela í sér tillögur um hvernig æskilegt sé að aðgengi nemenda að þessum gögnum verði og hvernig aukið aðgengi geti þjónað ólíkum hópum s.s. þeim sem eru hæglæsir (án greiningar), til stuðnings við íslenskunám íbúa af erlendum uppruna og til almennrar hvatningar við íslensku-/lestrarnám. Vinna úttektaraðila hófst í desember 2024 og stefnt er að því að niðurstöðum, tillögum og kostnaðarmati verði skilað fyrir marslok 2025. Þessu verkefni ber að fagna og verður áhugavert að sjá niðurstöðurnar og hverju þær muni skila fyrir þjónustuþega.

Öruggara Norðurland vestra