- Félags- og skólaþjónusta A-Hún
- Helstu hlutverk
- Hafa samband
Hlutverk félagsþjónustunnar er m.a. að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Þjónustan byggir á því að koma til móts við þarfir þeirra sem eftir þjónustunni leita. Markmið félagslegrar ráðgjafar er að hjálpa fólki til sjálfshjálpar þannig að sérhver einstaklingur geti sem best notið sín í samfélaginu.
Fjárhagsaðstoð er veitt samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga en samkvæmt þeim er hverjum og einum skylt að framfæra sjálfan sig, maka og börn yngri en 18 ára.
Í lögunum er einnig kveðið á um að sveitarfélag skuli veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð sem er til þess fallin að bæta úr vanda eða koma í veg fyrir að fólk lendi í þeirri aðstöðu að geta ekki séð fyrir sér og sínum.
Ýmsar ástæður geta legið að baki því að fólk þurfi fjárhagsaðstoð, svo sem lág laun, atvinnuleysi eða veikindi. Félagsþjónusta A-Hún hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð sem starfsmenn vinna eftir. Ráðgjafar deildarinnar taka við fjárhagsumsóknum og leggja þarf fram ýmis gögn er varða fjárhaginn, svo sem skattframtal, álagningaseðil, launaseðla og húsaleigusamning. Í umsókn þurfa m.a. að koma fram upplýsingar um fjölskyldugerð, atvinnu, húsnæði, tekjur, skuldir og eignir. Hægt er að leita til ráðgjafa til þess að fá leiðbeiningar varðandi umsóknarferlið.
Fjárhagsaðstoð er skattskyld.