Stuðlar

Meðferðarheimili ríkisins Stuðlar tók til starfa árið 1994 en flutti í núverandi húsnæði að Fossaleyni í Grafarvogi árið 1996.  Starfsemi Stuðla skiptir í þrennt: á meðferðardeild fer fram sérhæfð greining og meðferð, boðið er upp á eftirmeðferð eftir útskrift af meðferðardeild og neyðarvistun er á lokaðri deild.  Á meðferðardeild er rými fyrir 8 unglinga á aldrinum 13-18 ára.  Lengd meðferðar er á bilinu 6-12 vikur.   Í meðferðinni er stuðst við reglubundna dagskrá og atferlismótandi þrepakerfi þar sem markmiðið er að styrkja sjálfsmynd unglingsins og gefa honum tækifæri til að læra að taka ábyrgð á líðan sinni og vanda.  Útivist, ferðalög, tómstundir og íþróttir eru mikilvægur hluti meðferðarinnar.  Það sem helst einkennir meðferð á Stuðlum er einstaklingsbundin nálgun og er lögð áheyrsla á að styrkja hvert barn í að vinna með sterkar og veikar hliðar í samskiptum við annað fólk og samfélagið.

Í eftirmeðferð eiga börnin kost á hópviðtölum, einstaklingsviðtölum sem og áframhaldandi foreldrastarfi vikulega í allt að sex mánuði eftir að vistun lýkur.  Markmið eftirmeðferðar er að þróa áfram þann árangur sem ávannst á meðferðardeild og er börnum veittur stuðningur til að fóta sig í samfélaginu.

Á lokaðri deild er hægt að vista fjóra unglinga í bráðavistun.  Barnaverndarnefndir og lögreglan geta einungis vistað barn á lokaðri deild.  Unglingarnir koma þar m.a. vegna afbrota, ofbeldis eða stjórnleysis vegna neyslu og er skaðleg og jafnvel lífshættuleg hegðun barns stöðvuð með því móti.  Hámarks vistunartími er 14 dagar.

Starfsmenn Stuðla eru um 27 talsins, þar á meðal forstöðumaður, þrír sálfræðingar, þrír deildarstjórar, 4 hópstjórar, unglingaráðgjafar, næturverðir og tveir kokkar.

Árið 2000 voru piltar 58% þeirra sem dvöldu á meðferðardeild á Stuðlum og 53% þeirra sem dvöldu á lokaðri deild.  Meðal dvalatími var 9,2 vikur og meðalaldur 15,2 ár. (Ársskýrsla Barnaverndarstofu 2000)