Samkomulag í höfn milli ríkis og sveitarfélaga um þjónustu við börn með fjölþættan vanda og um uppbyggingu hjúkrunarheimila

Á vef Stjórnarráðs Íslands segir frá að í gær, 19. mars, var undirritað samkomulag ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga; annars vegar um breytta ábyrgðarskiptingu í málefnum barna með fjölþættan vanda og hins vegar um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Breytingarnar eru liður í að einfalda verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og styrkja fjárhag sveitarfélaga og taka gildi um mitt þetta ár.

Samkomulagið um málefni barna með fjölþættan vanda felst í því að ríkið tekur að sér framkvæmd og ber ábyrgð á fjármögnun sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda sem búsett eru utan heimilis. Börnin sem um ræðir hafa miklar stuðningsþarfir og þarfnast meðal annars tímabundinnar vistunar utan heimilis þar sem veitt er meðferð vegna vanda barns. Það er gríðarlega mikilvægt að þessi viðkvæmi hópur fái þjónustu við hæfi og jafnræðis sé gætt til að veita slíka þjónustu.

Samkomulagið vegna uppbyggingar hjúkrunarheimila felst í því að sveitarfélög bera ekki lengur 15% stofnkostnaðar hjúkrunarheimila og þeim verður heimilt að innheimta gatnagerðargjöld. Þegar sveitarfélög úthluta lóðum undir hjúkrunarheimili verður það áfram gert án lóðarleigu og án byggingarréttargjalda. Settur verður á fót stýrihópur sem falið verður að útfæra nánar skiptingu á eldri hjúkrunarheimilum milli ríkis og sveitarfélaga. 

Hlekkur á frétt.