Dagur talþjálfunar 6. mars

Í dag, 6. mars, er dagur talþjálfunar. Árlega er haldið upp á dag talþjálfunar með mismunandi áherslum sem þó endurspegla fjölbreytileika í starfi talmeinafræðinga. Á Facebook-síðu Heyrnar og talmeinastöðvarinnar er bent sérstaklega á þennan dag og hvernig hægt er að vinna út frá þema ársins. Yfirskrift þemans í ár er ,,eflum málumhverfi barna“.

Seint verður lögð næg áhersla á að ríkulegt málumhverfi barna og gott efni leikur lykilhlutverk í því að efla málþroska þeirra. Börn læra tungumál í gegnum samskipti og lykillinn að öflugu málumhverfi er því að tala við börnin og hafa samskiptin af sem bestum toga. Það þarf að gefa sér tíma til að tala við börnin, sýna þeim áhuga og virka hlustun. Fullorðna fólkið þarf að vera góðar fyrirmyndir og leggja frá sér símann á meðan á samtölum stendur.

Lestur er ein af áhrifaríkustu leiðunum til að efla og auka við orðaforða barna. Það er mikilvægt að lesa á hverjum degi fyrir börn og því þarf að halda áfram þrátt fyrir að þau séu sjálf farin að lesa. Hvetjum þau til yndislestur eða hlustunar hljóðbóka og fullorðnir þurfa að vera fyrirmynd og taka sér bók í hönd og hafa bækur uppivið á heimilum.

Kenna þarf börnunum að nota snjalltæki á ábyrgan og skynsaman hátt og setja þeim mörk í notkun. Foreldrar stjórna og bera ábyrgð á því sem börnin horfa á.  Töluvert er til að smáforritum sem þjálfa málþroska og einnig eru heimasíður ákveðinna verkefna eins og Lærum og leikum með hljóðin og Lubbi finnur málbein. 

Höfum gaman og lesum saman!