SSNV ræður Söru Björk Þorsteinsdóttur sem verkefnastjóra farsældar á Norðurlandi vestra

Á vef SSNV má finna frétt um ráðningu verkefnastjóra farsældar á Norðurlandi vestra en Sara Björk Þorsteinsdóttir hefur verið ráðin í það starf. Verkefnastjóri farsældar á Norðurlandi vestra mun leiða undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs í landshlutanum skv. 5. gr. Farsældarlaga. Sara Björk mun hefja störf í byrjun febrúar. Við hjá Félags- og skólaþjónustu A-Hún. hlökkum til samstarfsins við Söru Björk og bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa.

Á vef SSNV segir: ,,Sara útskrifaðist með BS gráðu í búvísindum árið 2015 og lauk síðan BS í hjúkrunarfræði árið 2021. Vegna áhuga á lýðheilsu í gegnum íþróttir og hreyfingu þá bætti hún við sig diplómagráðu í styrktar- og þolþjálfun sumarið 2024 og lauk hún einnig námskeiði í Solihull-aðferðinni vorið 2024 hjá Geðverndarfélagi Íslands. Sara brennur fyrir uppbyggingu samfélagsins sem hún býr í en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsinu á Hvammstanga og nýtir þekkingu sína í búvísindum sem bóndi samhliða því starfi. Sem hjúkrunarfræðingur hefur hún góða reynslu í mannlegum samskiptum, virkri hlustun, af því að starfa sjálfstætt og bera ábyrgð. Sara Björk verður með starfsstöð á skrifstofu SSNV á Blönduósi".

Sara mun  vinna náið með forsvarsmönnum innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögum landshlutans og leiða saman fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að undirbúa svæðisbundið farsældarráð. Samningurinn er til tveggja ára og áætlað er að fyrir lok samningstímans hafi farsældarráð landshlutans verið kallað saman og undirbúningur hafinn að vinnu við fyrstu áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða í þágu farsældar barna.