Öruggara Norðurland vestra

Öruggara Norðurland vestra er svæðisbundinn samráðsvettvangur gegn ofbeldi, öðrum afbrotum og til að stuðla að bættri þjónustu fyrir jaðarsetta hópa. Í mars síðastliðnum var haldinn fyrsti stóri samráðsfundurinn, þar sem fjallað var um farsæld barna og ungmenna á Norðurlandi vestra, ofbeldi í nánum samböndum og einstaklinga í viðkvæmri stöðu.

Þann 11. desember hélt Öruggara Norðurland vestra stóran samráðsfund þar sem lögð var fram og samþykkt áskorun til samfélagsins á Norðurlandi vestra.
Hún fjallar meðal annars um aukið aðgengi að íþróttaaðstöðu og hvernig sveitarfélögin þurfi að bjóða upp á nauðsynlegan stuðning til að draga úr brottfalli ákveðinna hópa úr íþróttum.

Áskorunin er eftirfarandi:

  1. Auka aðgengi: Mikilvægt er að tryggja að íþróttaaðstaða og tækifæri séu aðgengileg öllum hópum, þar með talið börnum á tekjulágum heimilum, börnum af erlendum uppruna og börnum með fatlanir. Tryggja þarf að iðkendur og þjálfarar skilji hver annan. Huga þarf að samgöngum á milli sveitarfélaga til að framboð íþrótta- og æskulýðsstarfs nýtist sem best í landshlutanum. 
  2. Stuðningur sveitarfélaga:  Sveitarfélög þurfa að bjóða upp á nauðsynlegan stuðning, sérstaklega fyrir börn og ungmenni með greiningar, sérstakar þarfir og af erlendum uppruna, til að draga úr brottfalli þessara hópa úr íþróttum. Stuðningurinn gæti t.d. falist í að ráða stuðningsfulltrúa eða vera með fræðslu. Þá þarf einnig að tryggja samstarf og samvinnu við foreldra barna af erlendum uppruna.
  3. Nýta núverandi þekkingu: Mikil þekking liggur víða. Tengja þarf saman samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, svæðisfulltrúa íþróttahreyfingarinnar og nýjan verkefnastjóra farsældar, við það forvarna- og æskulýðsstarf sem unnið er nú þegar á Norðurlandi vestra til að nýta þekkingu þeirra og reynslu samfélaginu til heilla. 
  4. Ungmennastarf og lausnir: Það er lykilatriði að vinna með ungmennum sjálfum við að þróa lausnir sem nýtast þeim best, t.d. með því að virkja ungmennaráð sveitarfélaga. Ungmennahús og/eða félagsmiðstöðvar geta verið miðstöðvar fyrir slíkt starf, þar sem unglingar koma með hugmyndir og taka þátt í framkvæmd með það fyrir augum að t.d. draga úr áhættuhegðun. 
  5. Starfshópar og samstarf: Mikið forvarnarstarf er unnið á Norðurlandi vestra sem þarf að kortleggja og formfesta. Það er árangursríkt að formfesta starfshópa, til dæmis að fyrirmynd Brúarinnar, þar sem samstarf er styrkt milli félagsþjónustu, lögreglu, heilbrigðisstofnana, félagsmiðstöðva og skólastofnana.  Samræmt átak eykur líkurnar á árangri í forvörnum. 
  6. Aukum samfélagslega ábyrgð: Tryggjum að allir í samfélaginu séu þátttakendur og vel upplýstir, gerum okkar besta til að hver og einn hafi tækifæri til heilbrigðrar skemmtunar án áfengis- og vímuefna.